1 - 8.september 2025
LÚXUS Á HAFI - EXPLORA JOURNEYS
Fyrsta Explora skipið fór sína fyrstu ferð síðsumars 2023. Annað skipið verður sjósett í sumar 2024 og síðan er stefnt er á að Explora skipin verða 5 talsins árið 2028 og eru þau svo sannarlega nýr og spennandi valkostur þegar kemur að skemmtisiglingum. Skipin eru evrópsk gæðahönnun og svisslendingar sem eru m.a. þekktir fyrir 5 stjörnu hótelrekstur og hafa komið að öllu sem varðar þjónustu. Því er aðstaðan og þjónustan í hæsta gæðaflokki og áfangarstaðirnir skipsins eru spennandi. Leitast er við að upplifun á skipunu verði annars konar en áður hefur tíðkast í skemmtisiglinum. Eigendur og hönnuðir skipanna kalla þetta „Ocean State of Mind“.
Allar frekari upplýsingar um skipin og fyrirhugaðar ferðir skipanna þriggja veitum við með mikilli ánægju í gegnum tölvupóst, info@stjornuferdir.is.
Stjörnuferðir selja í allar ferðir Explora I, II og Explora III, sem hefur sínar ferðir 2026.
Explora Journeys














EXPLORA I mun hefja siglingar í norður Evrópu auk þess sem siglt verður til Íslands, Grænlands og Norður-Ameríku, á leið sinni í Karabíska hafið.
Siglingaráætlanir og ferðir í land miðast að hluta til við vinsæla áfangastaði en einnig er lagt upp úr að skoða minna þekkta staði og markmiðið er ávallt að upplifun farþeganna verði sem mest og best.
Brottför 1/9/25 kl. 20
Róm hefur ýmislegt fleira að bjóða en frægar fornminjar. Það er svo ótalmargt annað sem gerir borgina ómótstæðilega – tíska, götulist, vespuför eftir Appían veginum fræga, henda smápeningi í brunna, fá sér ítalskan ís (gelato) eða sitja bara á kaffihúsi og virða fyrir sér mannlífið. Það er einnig gaman að fara á pastagerðarnámskeið eða a.m.k. fá sér ekta pastarétt, t.d. á Renaissance-torginu.
Auðvitað er líka sjálfsagt að heimsækja Vatíkanið, Colosseum, Spænsku þrepin og Pantheon, listasöfn og kirkjur. Við verðum alltaf agndofa yfir því sem Rómverjar áorkuðu. Þegar komið er til Rómar, þar sem sagan svífur yfir vötnum, er svo skemmtilegt að skoða minjar gömlu Rómar og Rómverja. En það er líka nauðsynlegt að upplifa Róm nútímans – því sú borg er litrík og lífleg
Koma 09:00 / Brottför 20:00
Napóliborg stendur á milli hins þekkta fjalls Vesúvíusar og Phlegraen-eldfjallaöskjunnar. Napólí hefur stundum verið kölluð vagga ítalskrar menningar. Í Napólí er gríðarmikið af sögufrægum byggingum og rústum frá mismunandi sögutímabilum: kirkjur og hallir, óperuhús og margar byggingar sem eru ægifagrar, oft svo að það skortir orð til að lýsa þeim.
Ef farið er upp að Sant Elmo-kastalanum er útsýnið stórkostlegt yfir Napólíflóann og Sorrento-skagann, sem er upphafið að hinni frægu strönd, Amalfi.
Undir borginni er önnur borg, völundarhús af neðanjarðargöngum, sem voru grafin af rómverskum og grískum landnámsmönnum. Þegar allt logaði í ófriði var mikilvægt að geta farið huldu höfði.
Ef tök eru á er ógleymanlegt að heimsækja rústir Pompei og Herculaneum, sem grófust undir ösku og hrauni þegar Vesúvíus gaus árið 79 e.Kr. Eða að sigla út í hina friðsælu og rómantísku eyju, Capri.
Koma: 09:00/ Brottför 21:00
Þegar stigið er á land á Sikiley áttar þú þig á því hvað „la dolce vita“ raunverulega þýðir, því eins og t.d. í Trapani á Sikiley er lífsstíllinn það sem kallað er „slow-living“. Nauðsynlegt er að smakka klassíska sikileyska rétti, skoða framleiðslu á ólífuolíu og Limoncello-víni í Ortiga, þar sem framleiðslan og matreiðslan hefur verið eins kynslóð eftir kynslóð. Uppi á Erice er eitt stórfenglegasta útsýnið á Sikiley.
Þegar siglt er frá eyjunni finnurðu fyrir skringilegum söknuði og þig langar strax til að koma aftur og stoppa lengur.
Koma 08:00 /Brottför 18:00
Hvítmálaðar byggingar hafa boðið sjófarendum velkomna til Túnis frá ómunatíð. Fágæt mósaíkmunstur á veggjum húsanna, útskornar tréhurðir og flókin flísalögn gólfa eru við hvert horn í forna hluta borgarinnar (medina). Þar er völundarhús markaða, moskur með hvítum kúptum þökum, þaðan sem berast bænaköll reglulega. Íslömsku trúskólarnir eru auðþekkjanlegir, með einkennandi hvít og svört bogagöng og svalandi marmaragöng á milli þeirra.
En frönsk áhrif eru greinileg víða, þar sem Túnis laut stjórn Frakklands í um 100 ár, allt til ársins 1956. Í nýja hluta borgarinnar, Ville Nouveau, eru breiðgötur og meðfram aðalgötunni eru Eukalyptustrjágöng sem leiða að fallegu dómkirkjunni St. Vincent de Paul.
Gaman er að fara til fallega strandbæjarins Sidi Bou Said sem hefur verið listamönnum og skáldum innblástur í gegnum aldirnar. Nálægt bænum eru merkilegar og sögufrægar minjar Karþagóborgar sem var upphaflega stofnuð árið 14 e.Kr.
Koma 09:00 / Brottför 22:00
Skipið siglir að suðurhluta Sardiníu. Í Carloforte eru stundaðar fiskveiðar, og yfirleitt er kominn mikill fjöldi fiskibáta í höfnina þegar skyggja tekur.
Mjúk hafgolan blæs um bæinn og veitingastaðir freista, sumir hverjir hafa verið reknir af sömu fjölskyldunni í margar kynslóðir. Ef tök eru á er um að gera að smakka túnfiskinn Bluefin, sem er eftirsóttur af frægustu sushi-matreiðslumönnum í Tókýó.
Hallir hátt upp í hæðum og borgarvirkismúrar útskýra betur en orð hvernig eyjaskeggjar hafa þurft að verjast sjóræningjum og landtökumönnum. En í núinu eru markaðir, falleg torg og vingjarnlegir heimamenn sem fanga athyglina.
Ströndin á Sardiníu er fögur og fjölbreytt. Strendur eru ýmist sendnar eða hrjóstugar, þar eru leyndar víkur og hellar, sjófuglar og rómantísk þorp. Sýnin að landi er oft eins og málverk í stofu.
Njóttu alls þess sem skipið hefur upp á að bjóða.
Koma 10:00 / Brottför 20:00
Mallorca hafa flestir heyrt á minnst! Við vitum um fjörlegt strandlíf og í Palma-borg má heldur betur finna líflega bari, veitingahús og verslanir. En ekki er víst að við þekkjum hvernig hjartað slær hjá heimamönnum og að ógleymanlegt er að upplifa óspillta náttúru Mallorca, sem er kyrrlát og fögur.
Safírblár sjórinn umlykur Mallorca og hafið kyssir blíðlega hvítan sandinn við strendur eyjunnar. Inni í landi eru elstu vínekrur Spánar, kalksteinsfjöllin á eyjunni eru á minjaskrá UNESCO og þar er fjöldinn allur af vernduðum dýrategundum á náttúruverndarsvæðum Mallorca. Krúttleg lítil þorp inni í landi bjóða upp á friðsæl klaustur og kirkjur. Ekki sleppa því að smakka ekta paellu, helst sem er elduð yfir eldi eins og gert var á fyrri tímum.
Andaðu að þér menningu Katalóníu, sem er falleg blanda af mikilli orku og gömlum hefðum. Þegar heillandi Gaudí-arkitektúrinn er skoðaður, spyr maður sig hvernig hann fékk leyfi til að byggja þessar einstöku byggingar, sem voru sannarlega framúrstefnulegar á hans tíma!
Að ráfa um gotneska hverfið, fá sér tapas og freyðivín, setjast á huggulegt kaffihús eða skreppa á strandklúbb til að slaka á frá erilsömu borgarlífinu – Barcelona býður svo sannarlega upp á fjölbreytni.
Þegar myrkrið skellur á vaknar borgin enn frekar til lífsins og Ramblan fyllist af fólki og gleði sem erfitt er að standast. Það er alltaf eitthvert tilefni til að fagna!

Hér getur þú bókað sæti eða sent fyrirspurn
Flug til Rómar og heim frá Barcelóna auk 23 kg. innrituð taska.
Sigling með Explora í 7 nætur, glæsileg og rúmgóð svíta með svölum, allur matur og drykkur innifalinn.
Íslensk fararstjórn.
Ef áhugi er fyrir hendi, munum við bjóða upp á dvöl í 2- 3 daga fyrir siglingu í Róm og/eða 2-3 daga í Barcelona eftir að siglingu lýkur, og ef af verður, munum við fljótlega auglýsa spennandi prógram í þessum tveimur dásamlegu borgum.
Spennandi ferðir í landi
Forna borgin Segesta í hæðum Sikileyjar er vitnisburður um mikinn metnað Forngrikkja. Þarna eru stórbrotin hof og í fylgd leiðsögumanns fræðumst við um söguna þegar gengið er um rústirnar.
Útsýnið er dásamlegt og bakgrunnur grísk-rómverska leikhússins er Castellamare-flóinn, sem án efa hefur aukið dramatík leikritanna sem flutt voru þar til forna.
- Saga og byggingarlist Forngrikkja og Rómverja
- Lengd ferðar: 5 klst.
- Erfiðleikastig: 2 (miðlungs)
- Verð: 160 EUR pp
Byggð á Mozia-eyju má rekja til ársins 800 f.Kr., og var eyjan í þá tíð blómlegur og mikilvægur verslunarstaður. Gaman er að koma þangað, skoða gömlu borgarhliðin og Whitaker-safnið. Þegar komið er aftur á meginlandið heimsækjum við Dona Franca, sem er þekktur vínbúgarður í Marsala, til að fræðast um vínið sem þar er framleitt. Að lokum er rölt um fallegu götur Marsala áður en haldið er til baka í skipið.
- Saga og víngerð
- Lengd ferðar: 5 klst.
- Erfiðleikastig: 2 (miðlungs)
- Verð: 220 EUR pp
Hvort sem þú ert byrjandi eða með reynslu af eldamennsku getur Nuria kennt þér heilmikið. Námskeið Nuria heitir Centro Di Cultura Gastronomica, þar sem farið er yfir nokkra af helstu réttum Sikileyjar, og þið lærið um hvernig maturinn og aðferð við matreiðsluna er undir áhrifum arabískrar menningar. Að sjálfsögðu endar námskeiðið á því að snæða matinn sem þið elduðuð.
- Sikileysk matargerð
- Lengd ferðar: 5 klst.
- Erfiðleikastig: 2 (miðlungs)
- Verð: 315 EUR pp
Annað hvort er tekinn kláfur upp fjallið eða keyrt er í gegnum sveitir Sikileyjar, afar fallega leið upp Erice-fjallið. Þar uppi er samnefnt þorp, Erice, sem er heillandi miðaldarþorp með þröngar götur, krúttlegar búðir og kaffihús. Kirkjan, klaustrið og kastalinn gefa þorpinu virðulegan blæ og það er eins og að vera komin(n) inn í ævintýri frá miðöldum. Skoðaðu dásamlega garðinn Giardini del Balio og njóttu útsýnisins yfir hafið, sem er stórfengilegt.
- Saga og byggingarlist
- Lengd ferðar: 4 klst.
- Erfiðleikastig: 2 (miðlungs)
- Verð: 145 EUR pp
Bærinn Marsala á vesturströnd Sikileyjar er einstaklega fallegur og ríkur af sögu. Það er eins og að stíga aftur á bak í tíma við að ganga inn fyrir borgarhliðið. Við skoðum gamlar og sögufrægar byggingar, m.a. dómkirkjuna og Palazzo Senatorio. Að lokum skoðum við fornminjar við ströndina og eftir það er farið í vínsmökkun á nokkrum af hinum frægu Marsala-vínum, ásamt hádegisverði. Þegar keyrt er til baka í skipið er eftirtektarvert að sjá salt í vinnslu samkvæmt gamalli hefð, en saltflöturinn nær frá Marsala til Trapani.
- Menning og vínsmökkun
- Lengd ferðar: 4,5 klst.
- Erfiðleikastig: 2 (miðlungs)
- Verð: 230 EUR pp
Þessi ferð gefur góða innsýn inn í hinn einstaka menningarheim Sikileyjar. Við byrjum á að kynna okkur hvernig salt hefur verið unnið á Sikiley öldum saman, en saltflöturinn nær nánast samfellt frá Trapani til Marsala. Síðan er haldið til Marsala, sem er einstaklega fallegur bær og ríkur af sögu. Þaðan er farið á sveitabæ sem framleiðir ólífuolíu upp á gamla móðinn, eins og gert hefur verið þar kynslóð eftir kynslóð. Síðan er matreiðslusýnikennsla og við borðum gómsæta réttina í hádegisverð.
- Saga, matarupplifun og menning
- Lengd ferðar: 7 klst.
- Erfiðleikastig: 2 (miðlungs)
- Verð: 195 EUR pp
Við ætlum að þræða þröngar götur gamla bæjarins í Palma og einnig ganga í gegnum Paseo del Borne-verslunarhverfið og smakka tapas og um leið læra um sögu og hefðir spænskrar matargerðar. Nauðsynlegt er að smakka ensaïmada-kökur, sem eru einkennandi fyrir Mallorca.
- Saga, matarupplifun og menning
- Lengd ferðar: 4,5 klst.
- Erfiðleikastig: 2 (miðlungs)
- Verð: 110 EUR pp
Okkur gefst einstakt tækifæri að skoða prívat heimili í glæsihúsum og litlum höllum. Það er gaman að fræðast um lífsstílinn hjá listafólki, kaupmönnum og heldra fólki og sjá húsin sem þau bjuggu í. Það er kallað efra Palma. Í neðra Palma bjuggu sjómenn, fiskimenn og sjóræningjar, og munum við einnig skoða þeirra híbýli. Að sjálfsögðu smökkum við tapas á leið okkar.
- Byggingarlist, saga og menning
- Lengd ferðar: 4 klst.
- Erfiðleikastig: 2 (miðlungs)
- Verð: 85 EUR pp